Limgerði af ýmsum toga.

Birkikvistur í blóma, verður nokkuð breiður um sig og lágur.

Margar gerðir eru til af limgerðum, klippt og óklippt, mismunandi tegundir gera þau ólík en margt þarf að hafa í huga þegar útbúa skal limgerði.  Hversu mikið er plássið? Hversu hátt þarf/má það verða, sól/skuggi og ýmislegt fleira.

Fjallarifs vex meira upp en til hliðanna og myndar góðan vegg.

Ýmsar tegundir eru betri en aðrar í klippt limgerði, eins og Alparifs sem er fíngert og skuggþolið sem og Blátoppur. Sólelskar eru: Gljámispill og Birki. Svo er spurning um að velja illfærar tegundir þar sem maður vill engan óviðkomandi, tegundir með þyrnum eins og Blöndustikil (Ribes x magdalenae) sem er líkur alparifsinu og jafnvel fallegri eða Sunnubrodd.

Gott er að hafa í huga að ein tegund í heilt limgerði býður ákveðinni hættu heim, er varðar smit og sjúkdóma.  T.d. þegar ryðsveppur kemur upp í vissum tegundum að þá er hætt við að heill veggur hjá okkur eyðileggst, ef við hins vegar setjum saman nokkrar tegundir sem saman mynda eitt limgerði verður það ekki síður áhugaverðara heldur felur í sér minni áhættu, en þá er samt betra að hafa nokkuð gott pláss fyrir gerðið.

 

Hér hefur tekist vel til við limgerði með blönduðum tegundum, Blátoppurinn er einna fljótastur til á vorin. Gaman er að velja saman ólíkar tegundir eins og blóðrauðan Sunnubrodd, Blátopp, Aplarifs og Gljámispil. Varast skal að hafa of margar tegundir en skapa frekar meiri endurtekningu og leyfa þeim jafnvel að vaxa nokkuð villt. Með þessu móti er áhættu á sýkingum haldið í lágmarki.

Helst skal klippa svona, breiðast neðst og mjókkandi upp.

Vilji menn halda sig við eina tegund til að mynda meiri vegg er rétt að hafa í huga að klipping skiptir miklu máli til að það verði þétt og fallegt.  Einnig er ekki gott að það verði of breiðvaxið.  Á hverju ári er ársvöxturinn klipptur í um 30 cm hæð ofan við síðustu klippingarhæð.  Stundum klippa menn meira, til að fá ennþá þéttgreinóttari limgerði.  Mikilvægt er að klippa vel af hliðunum, láta ekki bætast við breidd limgerðanna meira en 2-5 cm á breiddina, mesta lagi 10 cm árlega.  Skynsamlegt er að klippa limgerðin þannig að þau mjókki upp.  Það stuðlar að betri lifun greinanna neðarlega á limgerðinu, þær fá meiri birtu.

Mótun limgerða með einn meginstofn og munur á rými klipptra gerða og óklipptra.

Fjölmargar tegundir má nota í limgerði. Algengt er að nota ýmsar tegundir af víði t.d brekkuvíði, strandavíði og viðju. Í stór og gróf limgerði má nota alaskavíði og jörvavíði sem eru mjög saltþolnir og henta því vel við sjávarsíðuna.

Gljámispill og fjallarifs eru líka tegundir sem eru mjög fallegar í limgerði en eru mun hægvaxnari heldur en víðir. Birki, sunnubroddur, blátoppur, runnamura og kopareynir eru allt tegundir sem sóma sér vel í limgerðum ásamt tegundum eins og lerki og sitkagreni. Við innganginn í grasagerðinn og húsdýra og fjölskyldugarðinn má sjá afar fallegt klippt limgerði úr Koparreyni.

Gljámispill er auðveldur í mótun og sést hér í fallegu bogadregnu klipptu gerði.

Dæmi um tegundir sem henta í mismunandi hæð á limgerðum:
Lágvaxin limgerði
u.þ.b. 50 sm
Birkikvistur, fjallarifs, gljámispill, loðvíðir, myrtuvíðir og runnamura.

Meðalhá limgerði 1-2 m
Birki, blátoppur, brekkuvíðir, alparifs, gljámispill, koparreynir, strandavíðir og sunnubroddur.

Hávaxin limgerði yfir 2 m
Alaskavíðir, jörfavíðir, lerki, sitkagreni og viðja.

Rauðblaðarósin er þyrnótt og því kjörin þar sem hindra skal ágang, sem og Sunnubroddur.

 

 

 

Gljámispill fær fagurrauða haustliti, sérlega fallegur og harðgerður en nokkuð maðksækinn, auðveldur í mótun.

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimild : http://www.gardplontur.is/PrentaFrett.asp?aID=778
Myndir: http://www.gardabaer.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=150039   http://leita.gardplontur.is/nanar.asp?tungumal=navnlatin&vareid=1022   http://www.gardurinn.is/default.asp?sid_id=54446&tId=1  http://leita.gardplontur.is/nanar.asp?tungumal=navnlatin&vareid=2020  http://v2.nepal.is/images/mynd_0285737.jpg