Nú er þessi garður sem var hannaður af okkur og byrjað var á 2017 orðinn gróinn og fallegur þar sem við fengum að skoða hann í fullum blóma nú í júlí, sjö árum síðar. Gróðursetning hófst þó ekki fyrr en fyrir um fjórum árum. Eigendur hans hafa svo séð um hann af mikilli alúð sem skilar sér margfalt og eiga hrós skilið. Innilega til hamingju með fallega garðinn ykkar.
Greinasafn fyrir merki: Garðaskipulag
Viðtal í garðablaði Morgunblaðsins
þann 26. maí 2023 birtist þetta viðtal í garðablaði Moggans.
Garðhús nýtt hjá hæðarmun lóðar.
Grasflöt er afmörkuð með þrifkanti. Glæsilegt útiborð „Þorparinn“ frá JAX handverk prýðir þennan fallega garð.
Sauna eða þurrgufa í garðinn?
Ef sauna er eitthvað fyrir þig og þú ert með ónotað horn eða svæði í garðinum gæti verið upplagt að nýta það undir saunukofa/hýsi. Þau er hægt fá eða smíða í alls kyns formum og útfærslum. Þetta hér að ofan er t.d. teiknað og bætt við núverandi pottasvæði. Þá er það útfært í sömu efnum og notuð eru víðs vegar í garðinum og það útfært í sama form og best passar húsi og nágrenni. Þannig er jafnvel hægt að láta það falla inn í umhverfið svo það verði lítið áberandi sé það ætlunin. Jafnvel má nýta hluta þess sem skjólvegg eða bæta því við núverandi skjólveggi. Sé pottasvæði nú þegar fyrir í garðinum gæti verið heppilegt að bæta saunu við það.
Þá er skynsamlegt að skoða vel hvar sauna er heppilegust í skipulagi garðsins og hanna það áður en að framkvæmd kemur. Oft þarf einnig að huga að undirstöðum og undirlagi fyrir þær. Best er að hafa aðgang að köldu vatni nærri og svo er rafmagn nauðsynlegt. Stærðir geta verið allt frá 3 fermetrum upp í 7 eða 8, algengast er þó í kringum 5 m2. Ekki þarf sérstakt leyfi fyrir því sé það innan við 15 m2 að stærð og staðsett a.m.k. 3 metra frá húsi og lóðamörkum.
Hægt er að fá tilbúnar saunur af ýmsum gerðum eins og tunnur eða nútímalegar með glerveggjum, allt eftir því hvað passar best. Helstu söluaðilar hér á landi eru:
- Sauna, Sauna.is á Smiðjuvegi í Kópavogi
- Trefjar í Hafnarfirði
- Funi og Blikkás einnig á Smiðjuvegi í Kópavogi
- Laugin einnig á Smiðjuvegi í Kópavogi
Hjá Sauna má t.d. sjá þessar útfærslur:
Trefjar í Hafnarfirði selja tilbúna saunuklefa/kofa eða hýsi eins og þessa:
Þessa nútímalegu gerð selja Funi/Blikkás en þeir eru einnig með hefðbundnar saunatunnur.
Bætt heilsa með saunuböðum
Finnar hafa í óralengi notað saunu sér til heilsubótar og kannski skýrir þetta viðtal við Dr. Rhonda að einhverju leiti áhuga þeirra og fólks á notkun þeirra til aukinnar vellíðunar og betri heilsu. Fyrir þá sem hafa áhuga þá kemur þar fram að því oftar sem gufubað er stundað því meira minnkar það líkur á ýmsum hjartasjúkdómum, alzheimer og fleirum, töfratalan virðist vera fjórum sinnum á viku í allt að 20 mín í senn. Það lækkar til dæmis blóðþrýsting og getur fækkað dauðsföllum af alls kyns orsökum um allt að 40% hjá þeim sem nota saunu fjórum sinnum og oftar í viku. Þó saunaböð séu yfirleitt álitin góð leið til slökunar og endurnæringar þá kemur einnig í ljós að þau veita líkamanum svipaðan ávinning og af meðal líkamrækt eins og aukinn hjartsláttur og sviti sýnir.
Hér eru því komnar enn fleiri ástæður til að nýta sér þetta form til betri heilsu.
Nýr garður frá grunni
Þessi garður var ómótaður þegar skipulag og teiknivinna hófst að lokinni þarfagreiningu. Hér verður farið yfir útkomuna sem við óskum eigendum innilega til hamingju með og greinilegt að verkið hefur verið unnið af fagfólki frá a-ö enda mjög vel tekist að fylgja hugmynd að veruleika. Einnig þökkum við kærlega fyrir að fá að sýna hér þennan fallega garð.
Á suðurlóð er timburpallur fyrir grill og góða borðaðstöðu ásamt heitum og köldum potti. Kringum pottasvæði er góður skjólveggur með fallegri lýsingu og þrepin eru einnig upplýst. Grasflöt er í kringum pallasvæði og er hún afmörkuð með hellum sem er bæði til prýði og nýtast einnig sem þrifkantur fyrir grassláttinn. Grjóthleðslan er svo upplýst að hluta sem bæði dregur athygli frá húsum í kring og undirstrikar náttúrulega fegurð hleðslunnar.
Hér fyrir neðan má sjá myndir þegar byrjað var að hanna garðinn og umhverfi hússins frá upphafi verks að verki í mótun.
Heimsókn í nýlega endurhannaðan garð
Viðskiptavinur okkar sendi okkur þetta skemmtilega myndband af garðinum eftir framkvæmdirnar og þökkum við kærlega fyrir það, virkilega gaman að sjá afraksturinn og óskum honum og fjölskyldunni til hamingju með flottan garð og vel unnið verk.
Fjölskyldan vildi gjarnan fá betri nýtingu út úr garðinum og ákveðið var að setja skjólvegg allan hringinn til að fá meira næði og einnig svo fótboltaleikir barnanna haldist innan lóðar. Skyggni milli veggja í skoti nýtist svo betur sem dvalarsvæði en þar mun einnig verða útgengt í garðinn úr baðherbergi svo ákveðið var að sleppa útisturtunni.
Garður endurhannaður í Kópavogi
Með góðfúslegu leyfi viðskiptavina fengum við að birta myndir fyrir og eftir endurhönnun garðsins þeirra. Miklar breytingar og eins og sjá má af myndunum tókst vel til. Umhverfis.is sá um hönnunina. Greinilegt er að þeir sem sáu um framkvæmdina sjálfa hafa vandað mjög til verka. Glæsilegt!
Garðurinn var endurskipulagður með betri afmörkun og opnari dvalarsvæðum. Hér á eftir eru myndir fyrir og eftir breytingar. Fyrst má sjá aðkomuna sem var endurnýjuð og þar var útbúið morgundvalarsvæði ásamt nýjum beðum og sorpgeymslu. Gróður er einnig endurnýjaður að mestu á efri hluta lóðar.
Innilega til hamingju með fallega garðinn ykkar 🙂
Endurnýjun og skipulagning hluta lóðar
Hluti lóðar eftir breytingar, upphækkuð gróðurbeð. Hellulagður stígur milli palla og fjölbreyttara efnisval ásamt heitum potti. Klifurrósir upp við suðaustur húsvegg.
Sama svæði fyrir breytingar, stór samsettur tímburpallur frá ýmsum tímabilum. Innsta svæði pallsins var lokað af með Fjallarifslimgerði.
Sama svæði fyrir breytingar, séð frá hinni áttinni. Skjólveggur við enda húsveggjar verður fjarlægður sem og tré í miðjum pöllum.
Hér sést suðausturhluti eftir breytingar. Einfaldur timburpallur úr lerki. Klifurrósabeð við suðaustur húsvegg. Runnagróðurkassi er við enda pallsins og matjurtarreitir þar í framhaldi.
Eitt horn garðsins fyrir breytingar sést á efri mynd, samsettir stallaðir pallar. Ölur á erfiðum stað fyrir miðri gönguleið. Skjólveggur við húshorn.
Á neðri myndinni má sjá eftir breytingar, svæði einfölduð og lögð í sömu hæð. Skipt upp með mismunandi efnum. Vínarhellur lagðar í stíg á milli palla sitt hvoru megin við húsið. Matjurtarbeðum komið fyrir í afmörkuðum reitum og rifs upp við skjólvegg þar sem það þrífst vel í skugga. Trjákurl sett í kringum matjurtarsvæðið. Ölur fjarlægður. Skjólveggur við húshorn er fjarlægður og Fjallarifslimgerði fært þangað sem veitir skjól og brýtur upp vind sem og að hægja á honum og kemur í veg fyrir vindsveipi.
Pallur í stöllum við nágrannavegg fyrir breytingar.
Eftir breytingar er opnað betur á milli svæða og mishæðóttum palli breytt í runnabeð með möl, allt í sömu hæð og pallur sem fyrir er. Hann fær að halda sér.
Steinabeð og blandað limgerði eftir breytingar, fjölbreyttir runnar og litskrúðugur gróður.
Það sem eigendur lögðu upp með og fannst hafa heppnast vel var:
- Skemmtilegra útiverusvæði og gert ráð fyrir heitum potti.
- Fengu meiri hlýleika í garðinn með gróðri, sérstaklega upp við hvíta endaveggi og aðgreina svæði garðsins betur.
- Fengu ráðgjöf um gróðursamsetningu þannig að gróður blómstri á mismunandi tíma.
- Fengu pláss fyrir matjurtargarð.
Þrifkantur fyrir grasflatir
Þrifkantur er hellurönd sem er oft lögð úr 15×30 cm hellum meðfram grasflötum upp við palla eða við hærra yfirborð en grasflötin. Hann er afar gagnlegur og mikið uppáhald þar sem hann gerir kantklippur óþarfar við sumarsláttinn. Allur grassláttur verður auðveldari þar sem sláttuvélinni er rennt eftir helluröndinni sem er lögð í sömu hæð og grasið eða ögn ofar. Með árunum vill grasið þó stundum leita yfir hellurnar og því er nauðsynlegt að kantskera meðfram hellurönd grasflatar til halda grasinu í horfinu og þrifkantinum snyrtilegum.
Aðkoma skiptir máli
Nauðsynlegt er að skoða samspil húss og aðkomu frá götu sjónarhorni, vilji maður að hús og garður njóti sín sem best, jafnt þeim sem leið eiga framhjá og íbúum. Skipuleggðu framgarðinn þinn svo hann nýtist þér sem best, á hann bara að vera augnayndi eða hvaða not viltu hafa af honum? Allt fer þetta auðvitað eftir stærð hans og legu. Það getur farið vel á því að nota áhugaverðan og litríkan efnivið framan við húsið.
Gerið aðalinnganginn skýran og augljósan svo aðkomufólk þurfi ekki að velta því fyrir sér hvaða inngang eigi að nota.
Efnisval er mikilvægt og hér er leitast við að hafa beinar og skýrar línur á milli ólíkra efna. Fáir, einfaldir hlutir og hver plöntur í röðum eftir tegund.
Lágmarksbreidd gönguleiðar er 1 metri. Varist stefnulausa og óþarfa boga í gönguleiðum.
Varist að planta limgerði of nálægt göngustíg, gott er að hafa lággróður næst honum þá myndast betra pláss t.d. til að sveifla örmum á gangi, bera innkaupapokana að húsi sem og stóra hluti í flutningum.
Forðist að hafa margar tegundir plantna. Myndið frekar litla hópa af færri tegundum. Varist að planta trjám af handahófi. Mikilvægt er að hugsa fyrst um staðsetningu stórra trjáa og síðan annan gróður í kring.
Heimildir og myndir: https://www.pinterest.com/pin/224405993905763441/, https://homedesignlover.com/landscape-designs
Einkagarður endurskipulagður
Hér er fjallað um breytingar á garði sem var endurhannaður með það í huga að mynda betri dvalarsvæði og meira næði. Efst sést aðkoma að húsinu þar sem aðalinngangur snéri í suður og lóðin var opin og lítið um næði. Aðalinngangurinn í húsið truflaði þannig talsvert aðal dvalarsvæði garðsins. Á miðri grasflöt voru stór tré og falleg fuglaböð úr stuðlabergi. Eftir breytingu voru bílastæði lokuð af frá garði og komið fyrir sorpgeymslu í skjólveggjum. Nú er gengið úr húsi beint út á suðurpall og þaðan út á stóra grasflöt sem nýtist vel til leikja. Komið var fyrir heitum potti með skjólveggjum fyrir aðalvindáttum sem stuðla einnig að betra næði.
Stór og góður viðarpallur nýtist vel fyrir garðveislur í góðum veðrum sem og til sólbaða og viðveru.
Heitur pottur er afmarkaður með skjólveggjum til norðurs og austurs, sem skyggja þá ekki á sól en skýla fyrir helstu góðveðurs vindáttum. Efri brún pottsins nemur við efri brún viðarpallsins kringum hann. Þannig er þægilegt að sitja umhverfis pottinn ef maður vill kæla sig niður og sóla sig. Áður en hafist er handa við endurskipulagningu er gott að geta séð fyrir sér útkomuna með því að skoða þrívíddarteikningar af fyrirhuguðum breytingum. Þannig verða yfirvofandi breytingar raunverulegri og auðveldar það oft eigendum að sjá endanlega útkomu þeirra.
Einnig var skoðað hvað gaman væri að nýta áfram, eins og náttúruhellur, fuglaböð og gróður. Ákveðið var að færa reynitré og fuglaböð úr stuðlabergi sem áður voru á miðri grasflöt út að jaðar lóðar, til að fá stærri grasflöt til leikja og til að koma í veg fyrir skuggamyndun en þannig nýtist garðurinn betur. Haldið var í þann gróður sem var í góðu ástandi og fallegar náttúrulegar steinhellur sem fyrir voru í garðinum en þær fluttar og gefið nýtt hlutverk. Steinhellurnar sem voru áður í aðkomustétt afmarka nú grasflöt frá blómabeði sem auðveldar grasslátt og gefur skemmtilegan svip. Einföld form eru á pöllum og hellulögn upp við hús, nútímalegt og stílhreint eins og húsið en í kringum grasflöt eru mýkri og frjálslegri form sem umvefja garðinn og skapa skemmtilegt mótvægi og hlýleika.
Stórar aspir sem áður skýldu fyrir austan átt voru fjarlægðar þar sem þær voru orðnar allt of háar, en reynt hafði verið að lækka þær um helming til þess að halda þeim og minnka skuggamyndun en það kom ekki vel út og þoldu þær það illa. Í staðinn var settur skjólveggur í þremur flekum og gróður sitt hvoru megin. Utan við vegginn eru rifsber, sólber og mismunandi tegundir af Reynitrjám. Með tíð og tíma munu trén ná að veita meira skjól fyrir ríkjandi austanáttinni líkt og aspirnar gerðu áður en munu síður verða of há.
Eigendur hafa einnig gaman af nytjaræktun og skipulagið tekur mið af því, þannig er kryddjurtabeð nærri eldhúsinu en aðalgrænmetisræktunin fer fram í austurgarði þar sem eru gróðurhús og grænmetisreitir ásamt ávaxtatrjám.