Greinasafn fyrir merki: Gróður

Viðtal í garðablaði Morgunblaðsins

þann 26. maí 2023 birtist þetta viðtal í garðablaði Moggans.

Garðhús nýtt hjá hæðarmun lóðar.

Grasflöt er afmörkuð með þrifkanti. Glæsilegt útiborð „Þorparinn“ frá JAX handverk prýðir þennan fallega garð.

@jaxhandverk útihúsgögn

Hvers vegna botnþekjandi gróður?

Undirgróður eða þekjugróður í beðum er varanlegasta leiðin til að útiloka illgresi og því er lykilatriði að ná að skapa þétta gróðurþekju í plöntubeðum. Nái gróðurinn að þekja allt beðið þarf lítið að hafa fyrir illgresinu sem nær þá ekki að spíra í skugganum sem af þessu hlýst og verður undir í samkeppninni. Hægt er að ná fram góðri botnþekju með ýmsum gróðri, bæði runnum og fjölæringum.

Himalajaeinir og Dögglingskvistur þekja vel.

Ýmsir runnar eru breiðvaxnari neðan til en aðrir eins og Alparifs, Hélurifs og Kirtilrifs en einnig Birkikvistur, Dögglingskvistur og Japanskvistur. Þá mynda Glæsitoppar og Glótoppar, Myrtuvíðir og Reyniblaðka líka góða botnþekju sem og jarðlægir runnar eins og Einir, Skriðmispill, jarðlæg Runnamura og Himalajaeinir sem þekur vel.

Íslenskur einir og Japanskvistur hafa myndað góða botnþekju.
Þetta limgerði úr Dögglingskvist hefur alveg náð að loka beðinu.

Eigi plöntur að geta útilokað illgresið verða þær að búa yfir a.m.k. einhverjum og helst flestum af eftirfarandi kostum:

• Að vera fljótar til á vorin – jafnfljótar eða fljótari en illgresið

• Að geta breitt úr sér hratt og þakið stóran flöt

• Að vera fremur skuggþolnar

• Að vera lengi að fram á haustið

Margir fjölæringar eru góðir til að ná þéttri botnþekju, það eru auðvitað breiðvaxnir og jarðlægir eins og Nálapúði, Músagyn, Dvergavör, Postulínsblóm og ýmsir hnoðrar en einnig skuggþolnir eins og Ilmgresi Spessart og Stemma, Fagurblágresi, Nýrnajurt, Dílatvítönn.

Hér má sjá hvernig Ilmgresið hefur náð að harðloka beðinu umhverfis tréð.
Það er einnig nánast sígrænt svo þá á illgresið engan möguleika.

Hnoðrar þekja líka vel og má næstum „teppaleggja“ beð og garða með þeim þar sem þeir fá að vera í friði.

Við rákumst á þessa fallegu hnoðrabreiðu í einkagarði í Hafnarfirði.

Yfirborðsefni í beðin. Þar sem ekki er hægt að koma við botnþekju með gróðri eða fyrst á meðan gróðurinn er að taka við sér mætti nýta yfirborðsefni í beðin eins og líst er hér neðar. Áður en yfirlag er lagt á er nauðsynlegt að skera og hreinsa kanta vel, fjarlægja illgresi í beði og í kringum rótarháls plantna.

Sandur – Áður en sandur er lagður í beðin má þekja jarðveginn með jarðvegsdúk eða dagblöðum. Leggja þarf sandinn út í a.m.k. 10 cm jöfnu lagi (sandur má ekki vera skarpur). Gott er að bæta við sandlagið 2-3 cm annað hvert ár.

Trjákurl – Leggja þarf út 5 cm lag af moltu eða bera á með Blákorni (2 kg./100 ferm.). Kurlið lagt út í jöfnu lagi 7-12 cm allt eftir grófleika. Því grófara kurl, því þykkara má lagið vera. Bæta þarf við kurlið annað hvert ár.

Molta – Leggja þarf moltuna út í 10 cm jöfnu lagi. Gott er að bæta við moltulagið ca 2-3 cm hvert ár.

Nýslegið grasyfirlag – Gras lagt yfir flötinn í 10 cm jöfnu lagi. Bæta má í eftir því sem lagið þynnist. Gagnlegt að nýta grasið svona á stöðum eins og skjólbeltum eða í stærri beð sem eru nokkuð hulin stórum gróðri, þar sem þetta lítur kannski ekkert sérlega vel út.

Heimildir:

http://landbunadur2.lbhi.is/yndisgrodur/Notkun.aspx

Fjölbreytileiki fjölæringa

Grundagerðisgarður í Reykjavík – fjölskrúðugt blómahaf

Fjölæringar eru nær óteljandi og er gríðarlegur fjölbreytileiki í formi þeirra, stærð og lögun. Þeir geta verið allt frá jarðlægum upp í allt að tveir metrar að hæð. Lögun þeirra er sömuleiðis mjög mismunandi allt frá því að taka mjög lítið pláss upp í að breiða verulega vel úr sér geta jafnvel fyllt heilu fermetrana með tímanum, hvort sem er hátt eða lágt.

Hraunbúi, jarðlægur fjölæringur sem myndar breiður og því góð þekjuplanta
Kastaníulauf, einn af hæstu fjölæringunum. Allt að tveir metrar á hæð.

Oftast er spáð í blómsturtíma og blómsturlit plantnanna en það getur líka verið gaman að spá í lit og lögun laufblaða þeirra sem eru margskonar því oft er blómgunartími fjölæringa aðeins tvær til fjórar vikur. Þeim má þá raða upp þannig að úr verði talsvert líf og hreyfing í beðum þó blómin vanti. Það getur til dæmis verið mjög gagnlegt ef um skuggabeð er að ræða því engar plöntur blómstra án sólar. Dæmi um fjölæringa sem notaðir eru vegna blaðfegurðar eru ýmsar Brúskur, Bjarnarrót, Blágresi, Bronslauf, Dvergavör, Musterisblóm, Postulínsblóm, Stilklauf og Vínlandsroði

Dvergavör, skrautleg þekjuplanta vegna marglitra laufblaða
Fjölbreytilegt fjölæringabeð í Yndisgarðinum í Fossvogi

Best er að velja lágvaxnari tegundir ef svæðið er vindasamt en einnig geta lágvaxnari plöntur hjálpað til við að beina vindi frá þeim hávöxnu sé þeim plantað saman, hærri aftan til eða í miðju beði og þeim lægri í kring. Einnig er um að gera að nota fjölæringa sem undirgróður í runna og trjábeðum. Hér er dæmi um velheppnað beð þar sem fjölæringurinn lífgar upp á limgerði og fyllir upp í þar sem runninn hefur gisnað með árunum.

Fjölæringur fyrir framan limgerði og trjágróður

Það er um að gera að prófa sig áfram og hafa mottóið „ef planta deyr er það leiðinlegt en skapar líka ákveðið tækifæri fyrir nýja plöntu“ að leiðarljósi en þetta og margt fleira gagnlegt kom fram á afar áhugaverðu fjölæringa námskeiði hjá Gurrý í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á vegum Endurmenntunar Landbúnaðarháskólans sem sótt var í vor. Kosturinn við fjölæringa fram yfir runna er að þá er auðvelt að flytja og færa til ef þeim líður ekki nógu vel þar sem þeim var plantað eða passa þar ekki lengur, nema Bóndarósir og Brúskur vilja ekki láta flytja sig. Einnig er hægt að velja „viðhaldslitlar“ tegundir ef markmiðið er lítið viðhald en blómsæll garður, það eru þá tegundir sem eru ekki skriðular eða taka smá tíma í að koma sér fyrir. Það eru til dæmis Burknar og skrautgrös eins og Bjarnarvingull og Blávingull einnig plöntur með kröftugan vöxt eins og Hjartasteinbrjótur og Austurlandalilja sem og laukplöntur eins og Stjörnulilja og Perlulilja.

Stóriburkni er viðhaldslítill ef hann fær frið til að koma sér fyrir í góðu skjóli

Til að hindra vöxt illgresis er mikilvægt að ná góðri botnþekju með gróðurvalinu því þá nær einæra illgresisfræið ekki að spíra. Óhjákvæmilegt viðhald felst þó m.a. í vorhreinsun (visið lauf og stönglar fjarlægt), vökvun, hreinsun illgresis, uppbindingar (eftir þörfum), áburðargjöf og að skipta plöntum þegar þær fara að deyja í miðju eða þegar blómgun minnkar. Plönturnar geta einnig orðið of miklar um sig og er þá þörf á að minnka þær með því að stinga utan af þeim. Best er að velja plöntur eftir jarðvegsgerð og ræktunarskilyrðum til að halda viðhaldi í lágmarki.

Dæmi um snemmblómstrandi tegundir í apríl til maí eru Balkansnotra, Demantslilja, Fjallakögurklukka, Geitabjalla, Huldulykill og fleiri primulur, Nýrnajurt, Perlusjóður, Skógarblámi, Snæstjörnur, Tyrkjaíris, Vetrarblóm og Vorgoði

Fjallakögurklukka er snemmblómstrandi fjölæringur í apríl til maí, lágvaxinn með sígrænt lauf

Dæmi um miðsumars blómstrandi tegundir í júní til júlí eru Alpabjalla, Bjarnarrót, Dvergblálilja, Engjablaðka, Fagurblágresi, Fjallasveipur, Geitaskegg, Hjartarfífill, Ígulstrokkur, Japansmura, Kastaníulauf, Kínahnappur, Logahetta, Mjallarsmæra, Munkahetta, Nunnuþrúgur, Postulínsblóm, Riddaraspori, Snægoðalykill, Venusvagn og Þórsmerkursteinbrjótur.

Geitaskegg blómstrar um miðsumar í júlí og þolir illa flutning

Dæmi um síðsumars blómstrandi tegundir eru Alpaþyrnir, Berghnoðri, Dvergadrottning, Engjakollur, Fagurhjálmur, Fjallastjarna, Garðabrúða, Garðakobbi, Hraundepla, Hærusunna, Indíánakrans, Japanshnoðri, Kasmírsalvía, Kvöldstjarna, Ljósahnoðri, Mararljós, Musterisblóm, Nálapúði, Nettluklukka, Randagras, Rósatrúður, Silkibygg, Sveipstjarna, Tígurblóm, Urðarhnoðri, Venusvagn og Þyrnihnetulauf.

Rósatrúður um 30-50 cm á hæð og myndar þéttar breiður

Dæmi um fjölæringa sem standa lengi í blóma eru Alpadrottning, Dverghjarta, Hjartarblóm og Stjörnublaðka.

Hjartarblóm er eðalplanta, blómviljug og fagur. Þrífst vel í góðu skjóli og nokkuð skuggþolin

Nokkrar góðar leitarvélar og upplýsingavefsvæði má finna á vefnum eins og Félag garðplöntuframleiðenda, Listigarðurinn Akureyri, sem og á nokkrum vefsíðum gróðrastöðva eins og Gróðrastöðin Þöll, Gróðrastöðin Mörk, ágætislisti en án mynda er á Gróðrastöðinni Storð.

Heimildir:

http://www.lystigardur.akureyri.is/uploads/PERENNI.pdf

https://www.gardheimar.is/is/moya/extras/frodleikur/litrikir-fjolaeringar

https://skemman.is/bitstream/1946/25089/1/BS.%20ritger%C3%B0.%20SEH.pdf

Val gróðurs í ýmis hlutverk

Torg með einföldum formum þar sem samspil lita fær að njóta sín.

Gróðri er plantað til að sinna ýmsum hlutverkum eins og veita skjól, loka einhverju af (bílaplani, inngangi, einkagarði ofl.), limgerði í stað skjólveggs, til prýði, samspil lita og margt fleira. Til þess að vel takist til er mikilvægt að velja réttar tegundir eftir því hlutverki sem þær eiga að gegna, varðandi vaxtarlag og -hraða, stærð og umfang.

Passa verður að velja ekki of hávaxinn gróður þar sem hann má ekki verða of stór, hraður vöxtur eykur þörf á miklum klippingum til að hemja vöxt. Betra er að velja tegundir sem henta í þá hæð sem maður vill ná.

Gróðurinn hefur líklega ekki átt að loka fyrir útsýni úr glugganum.

Ef gróðurbeð er t.d. 1 m á breidd við gangstétt eða göngustíg verður að passa að umfang tegunda verði ekki mikið meira en það, því annars kallar það á margar klippingar til að halda gróðrinum í skefjun og hann loki ekki gönguleiðum. Umfangsmiklar tegundir kalla á mikið og gott pláss til að fá notið sín til fulls.

Gönguleiðir lokast með tímanum ef tegundir eru of umfangsmiklar.
Hér hefur Alaskaylli verið plantað of nærri gönguleið en hann þarf mikið pláss og vex hratt.

Tegundir sem nota á í limgerði eru valdar út frá því sem á að ná fram t.d. þétt, hægvaxið en sígrænt Sitkagreni.

Sitkagreni er sígrænt, hægvaxið og lokar fullkomlega allt árið.

Eða hraðvaxnar tegundir sem þarfnast klippinga 1-2 var á sumri eins og Víðtegundir.

Víðitegundir vaxa skjótt.

Ef gróðurinn er til þess fallinn að loka fyrir umferð óviðkomandi gæti t.d. Sunnubroddur átt vel við til að gegna því hlutverki.

Sunnubroddur lokar fyrir óviðkomandi umferð með stórum broddum sínum.

Hægt er að nota gróðurinn til að ná fram ákveðnum formum og mismunandi áferð með hinum ýmsu tegundum. Hér eru notuð strá í stað blóma með góðum árangri.

Strá í stað blóma.
Heildarsvipur, samræmd gróðurbeð prýða opinbera byggingu.

Gleymum ekki undirstöðu gróðurs – rótarvænt burðarlag

Jafnvægi milli þess að hellur haggist ekki og gróður dafni getur verið vandfundið.

Þegar gera á endurbætur á garðinum má ekki gleymast að huga að því að nóg verði af næringaríkri gróðurmold vilji maður hafa fallegan gróður í garðinum. Ansi oft í kringum nýbyggingar og þegar verið er að gera upp heilu garðana skipta verktakar út næringaríkum jarðvegi fyrir frostfrítt efni (grjót og möl) á kostnað gróðurmoldar. Þá er ekki hægt að gera ráð fyrir því að stór og falleg tré muni ná að dafna í garðinum, sem og annar runnagróður. Því er mikilvægt að passa upp á að velja gróður sem hentar því undirlagi sem fyrir er eða setja gott undirlag fyrir þann gróður sem rækta á ef það er mögulegt. Á þessari mynd sjást fallegar endurbætur en sjá má að komið hefur verið fyrir frostfríu efni en plássið sem eftir er fyrir gróðurmoldina er harla lítið. Kannski nóg fyrir litla runna eða fjölæringa. Garðyrkjumaðurinn vill nóg af mold fyrir gróðurinn en helluleggjarinn nóg af frostfríu efni til að verk hans haggist ekki í áranna rás. Þarna rekast hagsmunir á og millivegurinn vandfundinn en best er að gróður fái nægilegt magn af rótarvænu burðarlagi. „Með rótarvænu burðarlagi er trjánum tryggt nægjanlegt vaxtarrými í jarðvegslagi sem er þannig uppbyggt að það virkar jafnframt sem burðarlag fyrir gangstéttir og götur, þar af kemur nafnið rótarvænt burðarlag. Uppbygging rótarvæns burðarlags er 80-85% af samkorna grófri möl og 15-20% af ræktunarjarðvegi. Kornadreifing í mölinni þarf að vera þannig að við þjöppun myndist 20% holrými fyrir rætur og jarðveg án þess að það hafi áhrif á burðargetu.“

Oftast má reikna með að rætur þurfi jafnmikið pláss og ofanvöxturinn og því betra að þær geti náð upp næringarefnum allt í kring, því annars vex gróðurinn minna og verður veikburðari og nær jafnvel ekki að þrífast nægilega, einnig verður hann veikari fyrir foki og vondum veðrum.

Heimildhttp://yndisgrodur.lbhi.is/wp-content/uploads/2018/01/Tr%C3%A9-%C3%AD-borgarumhverfi.pdf sótt á vef lbhi.is 26. ágúst 2019.

Lóðamörk við götu, ýmsar útfærslur

Viltu skýla garðinum frá veginum? Það er hægt að gera á margan hátt, hér að neðan eru mismunandi útfærslur.

Skjólveggir og gróður á víxl mynda góða lokun.

Flekar úr timbri með blönduðum gróðri fyrir framan sem hylur skjólvegginn nokkuð og milli fleka er plantað sígrænu greni sem lokar allan ársins hring, mjög fjölbreytt.

Gróður með skjólvegg fyrir hluta garðs en annar hluti hans nokkuð opinn. Fjölbreytileiki í gróðri áberandi.

Limgerði úr greni er sígrænt og lokar vel allt árið um kring.

Timburskjólveggur eingöngu myndar góða heildarlokun.

Síðastir með haustliti

Við skipulag á plöntum er oft reynt að ná góðri breidd í fjölbreytileika og hafa „eitthvað í gangi“ á öllum tímum sumars og jafnvel árs. Algengt er að blanda saman blómstrandi runnum og plöntum eftir blómgunartíma og litum þannig að eitt taki við af öðru. Það mætti kannski líka hugsa það sama út frá haustlitum plantna, hvenær þær byrja og enda haustliti sína. Það er nefnilega sérlega fallegt að sjá tré og runna sem enn standa eftir með lauf sín í áberandi haustlit þegar flest hafa misst laufin. Eins og þessi fallegi reynir sem skartaði sínu fegursta í nóvember löngu eftir að fyrsta haustlægðin gekk yfir.

Fjallareynir ´belmonte stendur lengst með haustliti sína.

Drekabroddur, Berberis amurensis var áberandi innan um vetrarbúning umhverfisins.

Drekabroddar voru áberandi í nóvember byrjun þegar aðrar tegundir voru búnar að fella laufin en þeir voru enn í sínum fegurstu haustlitum.

 

 

Mest áberandi tré haustsins

Reynir ´Dodong fær afar áberandi appelsínugula haustliti.

Í október skáru þessi tré sig mest úr í sínu umhverfi. Mjög falleg tré sem nutu sín til fulls. Þessar myndir voru teknar áður en fyrsta haustlægðin skók þau til.

Skinreynir, Sorbus ´Rehderiana fær afar áberandi fallega hárauðan haustlit.

Broddhlynur fær sérlega áberandi gula og appelsínugula haustliti.

Virginíuheggur ´Lúsifer fær mjög fallegan djúprauðan haustlit.

Kínareynir ´Sólon skartar þessum fallegu haustlitum jafnvel eftir fyrstu haustlægðina.

Þessi tré lífga upp á haustið.

Haustdýrð

Þegar fyrsta hressilega haustlægðin hefur síðan vaðið yfir landið fjúka flest haustlaufin af en þá stendur Sumareikin áberandi út úr vegna þess hve fallega græn laufin eru enn. Hún stendur laufguð mun lengur en flest lauffellandi tré.

Sumareikin heldur dökkgrænum og sterklegum laufum sínum langt fram á haustið.

 

Litadýrð haustsins

Reynitegundir bjóða upp á fjölbreytta haustliti

Við val á gróðri er gott að hafa í huga ýmis atriði eins og fjölbreytileika í haustlitum tegunda. Raða tegundum saman að þannig að sérkenni þeirra fái notið sín á mismunandi árstíðum. Haustin eru sérlega skemmtilegur tími skærra og fallegra lita í rauðu, gulu og appelsínugulum tónum sem gleðja augu okkar. Tegundir sem mynda áberandi haustliti njóta sín enn betur þegar þær eru umluktar grænum lit annarra tegunda í bakgrunni og það sama á við um purpurarauð blöðin á Virginíuheggnum. Þau verða þannig meira áberandi og skera sig úr nærliggjandi gróðri.

Tegund nýtur sín til fulls þegar hún sker sig úr nærliggjandi umhverfi.

Hélurifs er frábært til að þekja trjábeð og fær afar fallega haustliti.

Helstu tegundir sem fá fallega rauða haustliti eru t.d. : Bersarunni, Birkikvistur, Japanskvistur, Fjallarósablendingur, Gljámispill, Hélurifs og Kirtilrifs, Rósakirsi ´Ruby, Koparreynir, Skrautreynir, Úlfareynir, Sunnubroddur, Sveighyrnir og Þyrnirós ´Lovísa.

Helstu tegundir sem fá fallega gula haustliti eru t.d. : Flestar víðitegundir, kvistir og toppar, Alaskavíðir og Alaskaösp, Bersarunni, Bergreynir, Fjallarifs og birki, Birkikvistur, Bjarmarós, Blárifs, Blátoppur, Blöndustikill, Brekkuvíðir, Brúðurós, Dúntoppur, Fagursýrena, Fjallarós og blendingur, Fjallatoppur, Garðagullregn, Garðakvistill, Gljásýrena, Glótoppur, Glæsitoppur, Gráreynir, Gultoppur, Heggur, Hlíðaramall, Ígulrós, Japanskvistur ´Golden princess, Jörfavíðir, Körfuvíðir, Klukkutoppur, Mánakvistur, Loðvíðir, Myrtuvíðir, Perlukvistur, Rauðtoppur, Reyniblaðka, Runnamura, Selja, Silfurreynir, Síberíukvistur, Snjóber, Snækóróna, Sólber, Sunnukvistur og Surtartoppur.

Heimildir: http://k-sql.lbhi.is/yg/Utlit.aspx

Annar pistill á síðunni sem fjallar líka um haustliti.

 

Langfyrstur með haustliti

Sparnaðarráð fyrir garðahönnun

IMG_1705

Náttúrulegt útlit með litlum tilkostnaði.

Margar leiðir eru til að gera garðinn huggulegan á einfaldan hátt með lágum tilkostnaði.

Skipuleggðu garðinn áður en þú byrjar, hvernig viltu nota hann, hefurðu gaman af að rækta eða viltu hafa garðinn einfaldan og viðhaldslítinnDSC04233?

Hvernig garð langar þig í? Nútímalegan með beinum línum og óþarfa prjáli? eða gamaldags með rúnnuðum lífrænum línum og formum þar sem auðvelt er að blanda saman ólíkum plöntum og hlutum? Gott er að hafa í huga að garðurinn passi við húsgerðina sem í garðinum er.

Gljámispill er auðveldur í mótun og sést hér í fallegu bogadregnu klipptu gerði.

Gljámispill er auðveldur í mótun og sést hér í fallegu bogadregnu klipptu gerði.

Hvaða plöntur eru nú þegar í garðinum, hverjar viltu hafa áfram? Gætu sumar sómt sér betur annars staðar, þá er um að gera að vera óhræddur við að flytja þær til. Með því að endurnýta gróðurinn sem fyrir er í garðinum ertu umhverfisvænn um leið og þú sparar. Tré getur til að mynda fengið nýja ásýnd og upplyftingu með því að raða grjóti í kring eða mynda hring og pláss í kringum það svo það fái notið sín til fulls ef á það er skyggt eða að því er þrengt.

Gott er að rissa garðin upp og skilgreina hvar hlutir og plöntur eiga að vera. Gerðu lista áður en farið er af stað að kaupa, með því má spara óþarfa kaup sem nýtast ekki sem skildi. Leitaðu ráða hjá fagfólki þegar þú þarft.

Einnig er hægt að skiptast á plöntum, fjölæringum og fræjum á ákveðnum tímum hjá Garðyrkjufélagi Íslands nú eða nágrönnum og vinum. Með því móti má fjölga tegundum og fá nýjungar í garðinn.

Sparaðu með því að gera sem mest sjálfur og taktu þér tíma í verkið, það veitir líka meiri gleði 🙂

Sótt á vef: http://homedesignlover.com/landscape-designs/10-money-saving-landscaping-tips/