Hér er fjallað um breytingar á garði sem var endurhannaður með það í huga að mynda betri dvalarsvæði og meira næði. Efst sést aðkoma að húsinu þar sem aðalinngangur snéri í suður og lóðin var opin og lítið um næði. Aðalinngangurinn í húsið truflaði þannig talsvert aðal dvalarsvæði garðsins. Á miðri grasflöt voru stór tré og falleg fuglaböð úr stuðlabergi. Eftir breytingu voru bílastæði lokuð af frá garði og komið fyrir sorpgeymslu í skjólveggjum. Nú er gengið úr húsi beint út á suðurpall og þaðan út á stóra grasflöt sem nýtist vel til leikja. Komið var fyrir heitum potti með skjólveggjum fyrir aðalvindáttum sem stuðla einnig að betra næði.
Áður voru á miðri grasflöt fuglaböð og stór tré.
Eftir breytingu var komið fyrir suðurpalli upp við hús og heitum potti.
Aðkoma og bílastæði en sorpgeymsla er felld inn í skjólvegg.
Dvalarsvæði, suðurpallur og heitur pottur.
Stór og góður viðarpallur nýtist vel fyrir garðveislur í góðum veðrum sem og til sólbaða og viðveru.
Heitur pottur er afmarkaður með skjólveggjum til norðurs og austurs, sem skyggja þá ekki á sól en skýla fyrir helstu góðveðurs vindáttum. Efri brún pottsins nemur við efri brún viðarpallsins kringum hann. Þannig er þægilegt að sitja umhverfis pottinn ef maður vill kæla sig niður og sóla sig. Áður en hafist er handa við endurskipulagningu er gott að geta séð fyrir sér útkomuna með því að skoða þrívíddarteikningar af fyrirhuguðum breytingum. Þannig verða yfirvofandi breytingar raunverulegri og auðveldar það oft eigendum að sjá endanlega útkomu þeirra.
Útlit vestur.
Heitur pottur með skjólveggjum.
Austurgarður horft úr suðri.
Aðkoma, sorpgeymsla og bílastæði.
Gróður og fuglabað eru færð út við lóðarmörk til þess að lóðin nýtist betur.
Fuglabað og grenitré voru fyrir miðri lóð þar sem nú er heitur pottur og suðurpallur.
Einnig var skoðað hvað gaman væri að nýta áfram, eins og náttúruhellur, fuglaböð og gróður. Ákveðið var að færa reynitré og fuglaböð úr stuðlabergi sem áður voru á miðri grasflöt út að jaðar lóðar, til að fá stærri grasflöt til leikja og til að koma í veg fyrir skuggamyndun en þannig nýtist garðurinn betur. Haldið var í þann gróður sem var í góðu ástandi og fallegar náttúrulegar steinhellur sem fyrir voru í garðinum en þær fluttar og gefið nýtt hlutverk. Steinhellurnar sem voru áður í aðkomustétt afmarka nú grasflöt frá blómabeði sem auðveldar grasslátt og gefur skemmtilegan svip. Einföld form eru á pöllum og hellulögn upp við hús, nútímalegt og stílhreint eins og húsið en í kringum grasflöt eru mýkri og frjálslegri form sem umvefja garðinn og skapa skemmtilegt mótvægi og hlýleika.
Hér fá steinhellurnar nýtt hlutverk. Auðvelda grasslátt og gefa skemmtilegan svip í beðið.
Náttúrulegar steinhellur voru áður í aðkomu að aðalinngangi, séð úr lofti.
Stórar aspir sem áður skýldu fyrir austan átt voru fjarlægðar þar sem þær voru orðnar allt of háar, en reynt hafði verið að lækka þær um helming til þess að halda þeim og minnka skuggamyndun en það kom ekki vel út og þoldu þær það illa. Í staðinn var settur skjólveggur í þremur flekum og gróður sitt hvoru megin. Utan við vegginn eru rifsber, sólber og mismunandi tegundir af Reynitrjám. Með tíð og tíma munu trén ná að veita meira skjól fyrir ríkjandi austanáttinni líkt og aspirnar gerðu áður en munu síður verða of há.
Aspirnar sem ákveðið var að fjarlægja þar sem þær voru svo háar og mikil skuggamyndun af þeim.
Rifsber og reynitré af ýmsum tegundum mynda fallega breiðu utan við skjólveggi.
Eigendur hafa einnig gaman af nytjaræktun og skipulagið tekur mið af því, þannig er kryddjurtabeð nærri eldhúsinu en aðalgrænmetisræktunin fer fram í austurgarði þar sem eru gróðurhús og grænmetisreitir ásamt ávaxtatrjám.
Kryddbeð er nærri eldhúsi svo stutt sé að sækja það í matargerðina.
Grænmetisræktun í gróðurkössum og ávaxtatré.
Geymslukofi, gróðurhús og ræktunarkassar er staðsett í austurgarði.