Ferðamannastaðir, hvað er til ráða?

Margt er verið að skoða í sambandi við ferðamannastaði, til að standa straum af kostnaði sem snýr að viðhaldi helstu náttúruperla okkar þar sem fjöldi ferðamanna hefur aukist gríðarlega á síðustu misserum. Þessum aukna fjölda sem spáð er að muni vaxa áfram næstu ár, fylgir aukinn átroðningur og umferð um viðkvæma náttúru okkar. Þar eru ærin verkefni við skipulagningu og úrræði til að hægt verði að fara áfram um þessi svæði og að þau haldi áfram verðgildi og sérstöðu sinni.

Hér verða nefnd nokkur atriði sem okkur þóttu áhugaverð af fyrirlestrum og ráðstefnum sem við sóttum á síðustu mánuðum. 

Eric Holding arkitekt hélt afar fróðlegt erindi á ferðamálaþingi 2013 sem haldið var í október á Selfossi. Hann talaði um mikilvægi þess að framkvæmdir okkar tengdum ferðamönnum og ferðamannastöðum verði vandaðar og miði að því að bæta umhverfið fyrir íbúa þessa lands því þá verði síður hætta á að ódýrar skyndilausnir verði ofan á. Illa ígrundaðar lausnir gætu leitt til þess að ferðamenn fælist frá og erfitt er að vinda ofan af slæmu umtali. Hann nefndi vel heppnuð verkefni eins og Hörpu og Airwaves sem væru orðin heimsþekkt og hefðu um leið afar jákvæð áhrif fyrir íslendinga sjálfa (við fáum heimsþekkta listamenn til landsins sem hjálpar okkar listamönnum að koma sér á framfæri erlendis). Við eigum að varast að búa til staði sem íslendingar sjálfir munu ekki vilja heimsækja. Einnig fjallar hann um hversu mikilvægt sé að varðveita menningu landsins og byggja nýjar lausnir á hennar grunni. Mikilvægt sé að halda í það upprunalega eins og hægt er og stuðla að sjálfbærni ferðamannastaða. Sem dæmi nefnir hann vandamál sem bretar hafa staðið frammi fyrir varðandi Stonehenge. Þar hafi reynst afar erfitt að ná aftur fram upprunalegu umhverfi þess eftir að vegir, gróður og byggingar voru byggðir í nágrenni þess. Það leiddi til þess að Stonehenge sem var komið fyrir í mikilli víðáttu var ekki lengur hægt að sjá hvaðanæva að. Fróðlegt er að skoða myndir af þessu í fyrirlestri hans sem er vísað í hér að neðan.

Eric Holding fyrirlestur á ferðamálaþingi pdf

Sumir tala um að aðgangseyri þurfi að rukka og þá eru vangaveltur um hvernig eigi að standa að því.

Aðgangseyrir að náttúruperlum þekkist víða:  Miklu máli getur skipt að gefa skýrt til kynna hvert aðgangseyrinn rennur. Rannsókn sem gerð var í Tasmaníu í Ástralíu sýndi að 86% gesta töldu gjöld vera af hinu góða ef þau rynnu beint til ferðastaðsins sjálfs en aðeins 36% fannst þau jákvæð ef þau rynnu beint í ríkiskassann. Samkvæmt þessu ætti að vera fýsilegri kostur að rukka á hverjum stað en að skella einni heildarsummu á ferðamennina.  Boston Consulting Group ráðgjafafyrirtæki hafa einnig unnið að því að skoða ýmsar leiðir þessu tengdu. Þeir kynntu niðurstöður vinnu sinnar á ráðstefnu í Hörpu þann 10. september síðastliðinn. Helst mátti ráða að niðurstaða þeirri væri að selja náttúrupassa til ferðamanna við komu þeirra til landsins, sem hægt væri að útfæra á ýmsa vegu. T.d. með mismunandi fjölda skoðunarstaða og væri þá hægt að láta þá gilda mislengi eða 1 mánuð f. ferðamenn en t.d. 5 ár til íbúa. Verðið áætlað á bilinu 3-5000 kr hver passi fyrir fullorðna. Þá koma upp spurningar um hvernig eigi að standa að rukkun og eftirliti. Verkefnið var kostað af fjórum íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum: Icelandair, Isavia, Höldur/Bílaleigu Akureyrar og Bláa lóninu. Skýrsluna í heild og kynningar á einstökum hlutum hennar má nálgast á vef verkefnisins.

Northern Sights: The future of tourism in Iceland

Einar Á. Sæmundsen fræðslufulltrúi þjóðgarðsins á Þingvöllum flutti erindi á haustráðstefnu félags landfræðinga þann 15. nóvember og benti á að bæði í Nýja Sjálandi og Bandaríkjunum tíðkast að þeir sem selja ferðir í þjóðgarða og á friðlýst svæði þurfi að hafa tilskilin starfsleyfi. Leyfishafar greiða þá gjöld fyrir þau og þurfa að sinna ákveðinni tilkynningarskyldu til forráðmanna staðanna. Þeir fá þá betri yfirsýn og stjórn á komu, dreifingu og fjölda komugesta, einnig sjá þeir hvort  starfsemin sé í samræmi við stefnumótanir og verndaráætlanir. Misjafnt er milli landanna hvort að greiddur er aðgangseyrir í þjóðgarðanna.  Í flesta þjóðgarða í Bandaríkjunum er greiddur aðgangseyrir ofan á þau gjöld sem fylgja starfsleyfum og eftirliti með fyrirtækjum.  Í Nýja Sjálandi greiða eingöngu fyrirtæki í rekstri sem nýta þjóðgarðana í fjárhagslegum tilgangi.  Fólk á eigin vegum sem heimsækir þjóðgarða Nýja Sjálands greiðir ekki aðgangseyri. Með því móti helst aðgangur einstaklinga óheftur. Þetta er klárlega áhugaverð útfærsla.