Greinasafn fyrir merki: Burknar

Fjölbreytileiki fjölæringa

Grundagerðisgarður í Reykjavík – fjölskrúðugt blómahaf

Fjölæringar eru nær óteljandi og er gríðarlegur fjölbreytileiki í formi þeirra, stærð og lögun. Þeir geta verið allt frá jarðlægum upp í allt að tveir metrar að hæð. Lögun þeirra er sömuleiðis mjög mismunandi allt frá því að taka mjög lítið pláss upp í að breiða verulega vel úr sér geta jafnvel fyllt heilu fermetrana með tímanum, hvort sem er hátt eða lágt.

Hraunbúi, jarðlægur fjölæringur sem myndar breiður og því góð þekjuplanta
Kastaníulauf, einn af hæstu fjölæringunum. Allt að tveir metrar á hæð.

Oftast er spáð í blómsturtíma og blómsturlit plantnanna en það getur líka verið gaman að spá í lit og lögun laufblaða þeirra sem eru margskonar því oft er blómgunartími fjölæringa aðeins tvær til fjórar vikur. Þeim má þá raða upp þannig að úr verði talsvert líf og hreyfing í beðum þó blómin vanti. Það getur til dæmis verið mjög gagnlegt ef um skuggabeð er að ræða því engar plöntur blómstra án sólar. Dæmi um fjölæringa sem notaðir eru vegna blaðfegurðar eru ýmsar Brúskur, Bjarnarrót, Blágresi, Bronslauf, Dvergavör, Musterisblóm, Postulínsblóm, Stilklauf og Vínlandsroði

Dvergavör, skrautleg þekjuplanta vegna marglitra laufblaða
Fjölbreytilegt fjölæringabeð í Yndisgarðinum í Fossvogi

Best er að velja lágvaxnari tegundir ef svæðið er vindasamt en einnig geta lágvaxnari plöntur hjálpað til við að beina vindi frá þeim hávöxnu sé þeim plantað saman, hærri aftan til eða í miðju beði og þeim lægri í kring. Einnig er um að gera að nota fjölæringa sem undirgróður í runna og trjábeðum. Hér er dæmi um velheppnað beð þar sem fjölæringurinn lífgar upp á limgerði og fyllir upp í þar sem runninn hefur gisnað með árunum.

Fjölæringur fyrir framan limgerði og trjágróður

Það er um að gera að prófa sig áfram og hafa mottóið „ef planta deyr er það leiðinlegt en skapar líka ákveðið tækifæri fyrir nýja plöntu“ að leiðarljósi en þetta og margt fleira gagnlegt kom fram á afar áhugaverðu fjölæringa námskeiði hjá Gurrý í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á vegum Endurmenntunar Landbúnaðarháskólans sem sótt var í vor. Kosturinn við fjölæringa fram yfir runna er að þá er auðvelt að flytja og færa til ef þeim líður ekki nógu vel þar sem þeim var plantað eða passa þar ekki lengur, nema Bóndarósir og Brúskur vilja ekki láta flytja sig. Einnig er hægt að velja „viðhaldslitlar“ tegundir ef markmiðið er lítið viðhald en blómsæll garður, það eru þá tegundir sem eru ekki skriðular eða taka smá tíma í að koma sér fyrir. Það eru til dæmis Burknar og skrautgrös eins og Bjarnarvingull og Blávingull einnig plöntur með kröftugan vöxt eins og Hjartasteinbrjótur og Austurlandalilja sem og laukplöntur eins og Stjörnulilja og Perlulilja.

Stóriburkni er viðhaldslítill ef hann fær frið til að koma sér fyrir í góðu skjóli

Til að hindra vöxt illgresis er mikilvægt að ná góðri botnþekju með gróðurvalinu því þá nær einæra illgresisfræið ekki að spíra. Óhjákvæmilegt viðhald felst þó m.a. í vorhreinsun (visið lauf og stönglar fjarlægt), vökvun, hreinsun illgresis, uppbindingar (eftir þörfum), áburðargjöf og að skipta plöntum þegar þær fara að deyja í miðju eða þegar blómgun minnkar. Plönturnar geta einnig orðið of miklar um sig og er þá þörf á að minnka þær með því að stinga utan af þeim. Best er að velja plöntur eftir jarðvegsgerð og ræktunarskilyrðum til að halda viðhaldi í lágmarki.

Dæmi um snemmblómstrandi tegundir í apríl til maí eru Balkansnotra, Demantslilja, Fjallakögurklukka, Geitabjalla, Huldulykill og fleiri primulur, Nýrnajurt, Perlusjóður, Skógarblámi, Snæstjörnur, Tyrkjaíris, Vetrarblóm og Vorgoði

Fjallakögurklukka er snemmblómstrandi fjölæringur í apríl til maí, lágvaxinn með sígrænt lauf

Dæmi um miðsumars blómstrandi tegundir í júní til júlí eru Alpabjalla, Bjarnarrót, Dvergblálilja, Engjablaðka, Fagurblágresi, Fjallasveipur, Geitaskegg, Hjartarfífill, Ígulstrokkur, Japansmura, Kastaníulauf, Kínahnappur, Logahetta, Mjallarsmæra, Munkahetta, Nunnuþrúgur, Postulínsblóm, Riddaraspori, Snægoðalykill, Venusvagn og Þórsmerkursteinbrjótur.

Geitaskegg blómstrar um miðsumar í júlí og þolir illa flutning

Dæmi um síðsumars blómstrandi tegundir eru Alpaþyrnir, Berghnoðri, Dvergadrottning, Engjakollur, Fagurhjálmur, Fjallastjarna, Garðabrúða, Garðakobbi, Hraundepla, Hærusunna, Indíánakrans, Japanshnoðri, Kasmírsalvía, Kvöldstjarna, Ljósahnoðri, Mararljós, Musterisblóm, Nálapúði, Nettluklukka, Randagras, Rósatrúður, Silkibygg, Sveipstjarna, Tígurblóm, Urðarhnoðri, Venusvagn og Þyrnihnetulauf.

Rósatrúður um 30-50 cm á hæð og myndar þéttar breiður

Dæmi um fjölæringa sem standa lengi í blóma eru Alpadrottning, Dverghjarta, Hjartarblóm og Stjörnublaðka.

Hjartarblóm er eðalplanta, blómviljug og fagur. Þrífst vel í góðu skjóli og nokkuð skuggþolin

Nokkrar góðar leitarvélar og upplýsingavefsvæði má finna á vefnum eins og Félag garðplöntuframleiðenda, Listigarðurinn Akureyri, sem og á nokkrum vefsíðum gróðrastöðva eins og Gróðrastöðin Þöll, Gróðrastöðin Mörk, ágætislisti en án mynda er á Gróðrastöðinni Storð.

Heimildir:

http://www.lystigardur.akureyri.is/uploads/PERENNI.pdf

https://www.gardheimar.is/is/moya/extras/frodleikur/litrikir-fjolaeringar

https://skemman.is/bitstream/1946/25089/1/BS.%20ritger%C3%B0.%20SEH.pdf