Þegar gera á endurbætur á garðinum má ekki gleymast að huga að því að nóg verði af næringaríkri gróðurmold vilji maður hafa fallegan gróður í garðinum. Ansi oft í kringum nýbyggingar og þegar verið er að gera upp heilu garðana skipta verktakar út næringaríkum jarðvegi fyrir frostfrítt efni (grjót og möl) á kostnað gróðurmoldar. Þá er ekki hægt að gera ráð fyrir því að stór og falleg tré muni ná að dafna í garðinum, sem og annar runnagróður. Því er mikilvægt að passa upp á að velja gróður sem hentar því undirlagi sem fyrir er eða setja gott undirlag fyrir þann gróður sem rækta á ef það er mögulegt. Á þessari mynd sjást fallegar endurbætur en sjá má að komið hefur verið fyrir frostfríu efni en plássið sem eftir er fyrir gróðurmoldina er harla lítið. Kannski nóg fyrir litla runna eða fjölæringa. Garðyrkjumaðurinn vill nóg af mold fyrir gróðurinn en helluleggjarinn nóg af frostfríu efni til að verk hans haggist ekki í áranna rás. Þarna rekast hagsmunir á og millivegurinn vandfundinn en best er að gróður fái nægilegt magn af rótarvænu burðarlagi. „Með rótarvænu burðarlagi er trjánum tryggt nægjanlegt vaxtarrými í jarðvegslagi sem er þannig uppbyggt að það virkar jafnframt sem burðarlag fyrir gangstéttir og götur, þar af kemur nafnið rótarvænt burðarlag. Uppbygging rótarvæns burðarlags er 80-85% af samkorna grófri möl og 15-20% af ræktunarjarðvegi. Kornadreifing í mölinni þarf að vera þannig að við þjöppun myndist 20% holrými fyrir rætur og jarðveg án þess að það hafi áhrif á burðargetu.“
Oftast má reikna með að rætur þurfi jafnmikið pláss og ofanvöxturinn og því betra að þær geti náð upp næringarefnum allt í kring, því annars vex gróðurinn minna og verður veikburðari og nær jafnvel ekki að þrífast nægilega, einnig verður hann veikari fyrir foki og vondum veðrum.
Heimild: http://yndisgrodur.lbhi.is/wp-content/uploads/2018/01/Tr%C3%A9-%C3%AD-borgarumhverfi.pdf sótt á vef lbhi.is 26. ágúst 2019.