Lýsing í garðinn

Vel heppnuð lýsing í garðinum skapar notalega stemningu.

Nú er mesta skammdegi ársins og þá er lýsing okkur afar hugleikin, jafnt innandyra sem utan.

Í fallegum garði má skapa nýjar víddir og áhrif utandyra með fallegri lýsingu. Njóta má garðsins jafnt innan úr húsi sem og auka ánægju vegfarandans á ferð sinni um hverfið á dimmum árstíma eða að kvöldi til.

Gott er að spyrja sig hvar viðbótarlýsing getur verið gagnleg í myrkri.  Þá er hægt að íhuga hvernig má lýsa upp þau svæði ásamt því að draga athyglina að uppáhalds svæðum garðsins eða uppáhalds plöntum eða trjám.

landscape lighting garden and trees

Lýsing að vetri, tréð verður að nokkurs konar skúlptúri.

Áhrif lýsingar:
Baða með lýsingu
Með því að koma lýsingu fyrir við jaðar veggs, skjólveggs/girðingar eða limgerðis og beina ljósinu meðfram þeim baðast yfirborðið af fallegri mjúkri birtu.  Sömu áhrifum má ná með því að lyfta lýsingunni aðeins upp og beina niður á ská eftir t.d. timburpallinum.

Trén verða mun meira áberandi í myrkrinu.

 

Skuggamyndun
Þegar ljósi er varpað framan á hlut eða tré getur myndast áhrifaríkur skuggi. Hann er svo hægt að auka ef vill eftir því í hvaða hæð ljósið er stillt.

 

Lýsingin getur fegrað garðinn enn frekar, öryggið er aukið með lýsingu gönguleiðar.

Lýsa niður
er gagnlegt til að velja út sérstaka plöntu eða smá hlut eins og fuglabað. Einnig til að vekja athygli á gönguleið eða til að vara sig á hæðarmismun.

Göngulýsing
Hugmyndin að þessari lýsingu er að laða eða vekja áhuga á því sem er framundan. Einnig skapar þessi lýsing aukið öryggi.

Tunglskyn
Rómantísk lýsing sem næst með því að koma ljósi fyrir t.d. í trjákrónu. Þá brotna ljósgeislarnir upp og dreifast um svæðið.

Auka má áhrif vatns þegar dimma tekur.

 

Vatnslýsing
með lýsingu ofan í vatni má ná fram fallegum áhrifum. Vatn á hreyfingu er sérstaklega aðlaðandi þar sem hver bylgja magnast með lýsingunni. Sama má segja um að lýsa upp gosbrunn eða foss.

Gott er að hafa í huga að minna er meira!
þegar kemur að lýsingu í garðinn.

Auka má sýnileika landslags sem er síður sýnilegt að degi til. Skuggar eru mikilvægir og því má ekki yfirlýsa heldur halda í dulúðina og varast of skær ljós, því þá getur garðurinn virkað óeðlilegur.

Hér er aðallega verið að lýsa upp húsið og gangveginn en gróðurinn er meira og minna í skugga.

 

 

       Vetrarlýsing

Lýsing í snjónum, kemur líka vel út og gefur rómantískan blæ.