Hlýir straumar náttúru og mannlífs á Geysissvæðinu.

Geysisteikning

Glæsileg tillaga Landmótunar  Geysir í Haukadal … hlýir straumar… náttúru og mannlífs hlaut fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun Geysissvæðis. Alls bárust 14 tillögur og var mikill einhugur hjá dómnefndinni um vinningstillöguna.

Tillagan lítur heildstætt á hverasvæðið umhverfis Geysi. Leiðir umferð gesta um svæðið svo að þeir fái notið heimsóknarinnar og upplifi einstakt náttúrufyrirbæri á heimsvísu. Hún miðar að því að uppfylla kröfur þess mikla fjölda ferðamanna sem heimsækir staðinn, með bættu stígakerfi og áningarstöðum eykst öryggi gesta og tryggir náttúrulega framvindu hverasvæðisins.

Grunnmynd_Geysir

Inngangar á hverasvæðið verða tveir, núverandi inngangur og nýr hjá fyrirhuguðum rútustæðum. Með flutningi á þjóðveginum suður fyrir þjónustukjarnan, skapast pláss fyrir fleiri bílastæði og rútur. Með því felst beinni og öruggari tenging milli þjónustusvæðins og hverasvæðisins, betri og skilvirkari aðkoma að svæðinu og aðskilnaður gangandi gesta og umferðar. Nýtt stígakerfið stuðlar að því að vernda svæðið kringum Geysi svo kísilskán í frárennsli hans geti byggst upp að nýju.

thjonustuhusid

Nýtt stígakerfi verður um Þykkvuhverasvæðið með svífandi timburstígum sem gefur gestum kost á að upplifa svæðið, þar sem má finna fjölbreyttar gerðir hvera, á annan hátt en áður.  Aðalstígur svæðisins liggur þar sem núverandi stígur er og verður mjög breiður með stórum útskotum á stuttu millibili til að taka við fjölda gesta. Hann verður steyptur með hitalögn til að tryggja aðgengi allra allt árið.

Blesapallur

Útsýnispallur og margmiðlunarskáli við Geysi. Gestum er boðið að Geysi til að upplifa þekktasta goshver veraldar. Endapunktur þar sem töfrar hins sofandi hvers verða dregnir fram með margmiðlunartækni. Gestir munu geta upplifað mismunandi sjónarhorn af Geysi með hjálp myndavéla og tölvutækni.

Áhorfendasvæði við Strokk. Þar verður hringlaga svífandi timburpallur sem getur tekið á móti allt að 200 manns í einu, í 20 m fjarlægð frá gosopi og stallast upp brekkuna vestan megin við hverinn. Stallarnir mynda setkanta sem hægt er að nota á fjölbreyttan hátt. Rennsli frá hverunum fyrir ofan mun eiga greiða leið undir pallinn.

Umhverfis óskar Landmótun innilega til hamingju með þessa fallegu tillögu og hlakkar til að sjá hana verða að veruleika innan tíðar.

Utsyni geysi

Heimildir: Morgunblaðið 7.mars 2014, http://www.landmotun.is/archives/2403, http://www.landmotun.is/wp-content/uploads/2014/03/greinagerd-30.jan_.pdf