High line garðurinn í New York dæmi um sérlega velheppnaða endurnýtingu.

Í New York hefur verið búinn til almenningsgarður á gömlum upphækkuðum flutningar-lestarteinum sem liggja eftir endilöngum vesturhluta Manhattan en þeir eru frá árinu 1934.

1960 eyðilagðist suðurhluti brautanna eins og sést á efstu myndinni og 1980 var farin síðasta flutningaferðin með frosna kalkúna.

Peter Obletz kom í veg fyrir að restin af teinunum yrði rifin og eftir enn frekari niðurníðslu brautarteinanna stofnuðu Joshua David og Robert Hammond íbúar samtök árið 1999 um varðveislu þeirra og lögðu til endurnýtingu á þeim sem opnum almenningsgarði.

 

Bygging hófst 2006 og opnaði fyrsti partur garðsins í júní 2009. Einn af hönnuðunum er Ricardo Scofidio.  Að eyða upphækkuðu lestarteinunum hefði kostað ógrynni fjár og með því að finna þeim nýtt hlutverk sparaðist dágóð summa og íbúarnir fengu eitthvað sem allir geta notið.

Garðurinn er einnar mílu langur eða 1,6 km með útsýni yfir aðliggjandi stræti.

Íbúar Manhattan ganga þar lengri vegalengdir en þeir höfðu úthald til á strætunum fyrir neðan og þarna uppi er fólk laust við erilinn og áreitið sem hrjáir það í borginni, fullkomið svæði til að slappa af og hefur verið mjög vel nýtt af vegfarendum borgarinnar.

 

 

 

Á einum stað í garðinum hefur verið komið fyrir “bíóskjá” glugga þar sem fólk getur setið og horft eftir breiðstrætinu fyrir neðan og fylgst með mannlífinu og umferðinni.

 

 

Á mörgum stöðum er lestarteinunum leyft að vera og gróðursett er inn á milli þeirra.

 

 

Gróðurinn fær að flæða inn í göngusvæðin.

Gróðurvalið fylgir sjálfsprottna gróðrinum sem búinn var að koma sér fyrir í kringum teinana eftir að notkun þeirra var hætt.

Fjölskrúðugur gróðurinn lífgar upp á borgina.

Flatmagað „ofan á“ breiðstræti New York borgar.