Gastankar í nýju hlutverki

Í Westerpark í Amsterdam hafa gamlir ónýttir gastankar fengið nýtt hlutverk, þeim hefur verið breytt í tjarnir.

Tjarnir með pöllum allt í kring fyrir göngusvæði sem minna á bryggju, en pöllunum hefur verið komið fyrir innan á veggjum tankanna og mynda veggirnir skemmtilega umgjörð utan um tjarnirnar.  Þegar sest er niður umvefja veggir tankanna mann ásamt gróðrinum í kring og er upplifunin ákaflega friðsæl maður gæti allt eins verið í eigin heimi.  Á heitum dögum er svalandi að sitja og kæla fæturna í vatninu.

 

 

 

 

 

Stór tré drjúpa yfir pallana kringum tjarnirnar og mynda skemmtileg göng.

Lilipond – Westerpark

Panoramamynd af tjörninni, vinstra megin hefur verið komið fyrir lægri palli sem myndar nokkurs konar bryggju eða setsvæði til að busla við.

Panorama mynd af „breiðstræti“ í garðinum Westerpark, tjarnirnar eru til vinstri.

Rauðu hringirnir sýna hvar tjarnirnar eru í garðinum.

Rauða örin sýnir hvaðan myndin af „breiðstrætinu“ var tekin.

Westerpark var áður gasverksmiðja. Árið 1960 var notkun hennar hætt og hluti bygginganna notaðar sem geymsla en aðrar stóðu auðar, þegar hópur heimilislausra tók sér bólstað í byggingum á svæðinu kom það í veg fyrir að þær yrðu rifnar.  Á þessum tíma breyttust viðhorf til bygginga og gömlu rauðu múrsteinsbyggingarnar urðu mikilvægar sögu iðnaðarbygginga í landinu.  Árið 1981 var ákveðið að breyta svæðinu í almenningsgarð. Catherine Gustavson vann samkeppnisverðlaun 1998 um hönnun garðsins og byggði hann upp á mismunandi elementum.

Jarðvegurinn var mjög mengaður og þurfti að fjarlægja hann að stórum hluta. Menguðum jarðveginum var komið fyrir í mönum í jaðri garðsins. Notast er við lokað vatnshringrásarkerfi þannig fer vatnið ekki niður í jörð og blandast ekki síkjakerfi Amsterdam.

Öllu svæðinu var breytt og það opnað almenningi 2003.

Mörg iðnaðarhúsanna hýsa nú kaffihús og listrænt kvikmyndahús, stóra sali fyrir listviðburði og skrifstofur fyrir ýmis konar hönnuði.

Einkenni garðsins eru gömul iðnaðarhús sem setja sterkan svip á innganginn. Þau eru öll úr rauðum múrsteinum.

 

Westergasfabriek Culture Park er gersemi fyrir öll skilningarvitin.  Hægt er að heyra vatn renna í tjörnum og sjá járnbrautarlestar hverfa á bak við flóðgarða.

 

Mörg svæði eru malbikuð, önnur eru með viltum blómum og sveigðum malarstígum.

 

Á opnum svæðum má finna vindinn leika um sig eða borða nestið sitt í skjóli gastanka við tjarnirnar sem þar eru nú. Einnig er hugsað um leiksvæði fyrir börn.  Garðurinn býður upp á stór opin svæði jafnt sem minni og lokaðri.  Þannig má finna frið og rólegheit handan við hornið á erilsömum dögum.

Bekkir eru víða um garðinn en þar er hægt að sitja og hlusta á leiðsögn.

Leiksvæði með náttúrulegt þema fyrir börn.